Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 7.–28.2.2024

2

Í vinnslu

  • 29.2.–25.3.2024

3

Samráði lokið

  • 26.3.2024

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-33/2024

Birt: 7.2.2024

Fjöldi umsagna: 6

Drög að reglugerð

Innviðaráðuneytið

Húsnæðis- og skipulagsmál

Drög að reglugerð um innleiðingu ákvæða um lífsferilsgreiningu mannvirkja í byggingarreglugerð

Niðurstöður

Alls bárust sex umsagnir um reglugerðardrögin. Umsagnirnar þóttu ekki gefa tilefni til breytinga á reglugerðardrögunum og vísast um það mat til meðfylgjandi samantektar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Reglugerðin hefur nú verið gefin út, sjá reglugerð nr. 383/2024 um breytingu á byggingarreglugerð.

Málsefni

Innviðaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að breytingu á byggingarreglugerð sem felur í sér innleiðingu ákvæða um lífsferilsgreiningu mannvirkja.

Nánari upplýsingar

Stór þáttur kolefnislosunar, hráefnisnotkunar og orkunýtingar á heimsvísu er af völdum byggingariðnaðarins. Í ljósi umfangs mannvirkjageirans og loftslagsskuldbindinga stjórnvalda er þörf á markvissum aðgerðum til að sporna við umhverfisáhrifum af þeim völdum. Með lífsferilsgreiningu mannvirkja er hægt að leggja mat á og takmarka umhverfisáhrif þeirra frá upphafi til enda.

Innleiðing lífsferilsgreiningar á íslenskum mannvirkjum á meðal annars rætur að rekja til aðgerðaráætlunar í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030 sem kom út árið 2022 og sem unninn var á vegum verkefnisins Byggjum grænni framtíð, samstarfsvettvangi stjórnvalda og atvinnulífs um vistvænni mannvirkjagerð. Í vegvísinum var sett fram markmið um 43% samdrátt í kolefnislosun bygginga árið 2030 miðað við viðmiðunarár og 74 aðgerðir skilgreindar til að ná því markmiði. Aðgerð 5.1.3 í vegvísinum, um samræmda aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga og innleiðingu hennar, er ein af grundvallaraðgerðum vegvísisins til að árangur náist; ef þú getur ekki mælt það, geturðu ekki bætt það.

Á grundvelli þessarar aðgerðar var myndaður starfshópur í ágúst 2022 um gerð samræmdrar aðferðafræði lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar. Starfshópurinn leitaði m.a. ráðgjafar og umsagna frá fjölda innlendra og erlendra hagaðila, bæði með fundum, opnum vinnustofum og lokuðu samráði innan Samtaka iðnaðarins. Niðurstöður og tillögur starfshópsins, sem birtar eru í meðfylgjandi greinargerð, byggjast því á reynslu og þekkingu úr íslenskum og norrænum byggingariðnaði. Þær eru í megindráttum í samræmi við aðgerðaáætlunina og fela í sér að í upphafi verði innleidd krafa um gerð og skil lífsferilsgreininga fyrir tiltekin mannvirki. Þegar fram líður og nær dregur 2030 verði íslensk losunarviðmið gefin út og þak sett á losun.

Meðfylgjandi tillaga að breytingum á byggingarreglugerð sem unnin er á grundvelli tillagna starfshópsins er hluti þeirrar heildarendurskoðunar byggingarreglugerðar sem nú stendur yfir. Breytingin felur í sér að frá og með 1. september 2025 verði gerð krafa um gerð lífsferilsgreininga fyrir öll ný byggingarleyfisskyld mannvirki í umfangsflokkum 2 og 3 en til þessa hefur aðeins verið mælst til þess að slík lífsferilsgreining sé gerð. Gert er ráð fyrir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefi út leiðbeiningar um samræmda aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga og að leiðbeiningarnar verði unnar á grunni framangreindra tillagna.

Lagt er upp með að lífsferilsgreiningum verði skilað í rafræna skilagátt hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bæði á hönnunarstigi og lokastigi. Skil á hönnunarstigi stuðla að því að greiningar séu gerðar snemma en því fyrr sem upplýsingar um áætlað kolefnisspor mannvirkja liggja fyrir, því auðveldara er að taka upplýstar ákvarðanir sem eru til þess fallnar að draga úr losun. Tilgangur þess að skila einnig uppfærðri lífsferilsgreiningu á lokastigi er að tryggja að mögulegt verði að taka saman heildstæðar upplýsingar um raunlosun við íslenska mannvirkjagerð svo reikna megi út losunarviðmið með góðu móti og fylgjast með þróun losunar.

Til að tryggja eins og kostur er farsæla innleiðingu er gert ráð fyrir að ný ákvæði í byggingarreglugerð um framkvæmd lífsferilsgreininga taki ekki gildi fyrr en 1. september 2025. Aðilum verði þó strax heimilt að skila inn til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar niðurstöðum og útreikningum lífsferilsgreininga í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Fram að gildistöku reglugerðarinnar verður unnið eftir markvissri fræðsluáætlun sem m.a. hefur það að markmiði að tryggja aðgengi að upplýsingum og fræðslu um gerð og skil lífsferilsgreininga, stuðla að því að hagaðilar fái reynslu við gerð og skil lífsferilsgreininga og skapa vettvang til að skiptast á þekkingu og reynslu í því sambandi. Lagt er upp með að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fylgi fræðsluáætluninni eftir á aðlögunartímabilinu. Loks er gert ráð fyrir því að fyrir gildistöku 1. september 2025 verði ákvæði reglugerðarinnar endurmetin á grundvelli þeirrar reynslu sem fæst á aðlögunartímanum.

Til að auðvelda gerð lífsferilsgreininga, sér í lagi þar sem rauntölur liggja ekki fyrir, verða gefnar út opinberar meðaltalstölur vegna einstakra fasa. Þessi gögn verða gerð aðgengileg strax í upphafi aðlögunartímabilsins og verða uppfærð reglulega.

Með innleiðingu lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar lærum við af og fylgjum eftir öðrum Norðurlandaþjóðum sem hafa á undanförnum árum innleitt slíkar greiningar. Sú þróun er í takti við markvisst samstarf Norðurlandanna varðandi kolefnishlutlausar byggingar, sem birtist m.a. í samvinnuverkefninu Nordic Sustainable Construction sem Norræna ráðherranefndin hleypti af stokkunum 2021.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Boð um þátttöku (0)

Umsjónaraðili

Skrifstofa húsnæðis- og skipulagsmála

irn@irn.is